Það er aftur komið sumar hérna í Köben, alla vega hefur hitinn verið yfir 20°C undanfarna daga. Í dag buðum við Hrafnhildi, Viðari og börnum hingað yfir í hádeginu. Sátum við matarborðið til kl. 3 og þá var loksins rifið sig upp og farið út að hjóla. Leiðin lá í Klöfermaket, en þar sem skemmtilegur garður með ávaxtatrjám, grænmeti og síðast og ekki síst skemmtilegum leiktækjum sem unnin eru úr trjádrumbum. Við áttum þarna góða stund, börnin léku sér og borðaðar voru kleinur úr Geirabakaríi í boði Geira og Önnubellu. Þessi garður liggur alveg við Kristjaníu. Var því ákveðið að hjóla þar í gegn á leiðinni heim. Við hjóluðum eftir síkinum og skoðuðum litlu, skökku húsin sem fólkið býr í. Þetta var ansi skrautleg ferð, því við vorum fyrir rest farin að hjóla á þröngum og dimmum stíg, sem var mjög ævintýralegt, ekki síst vegna þess að þessi staður er inni í miðri Kaupmannahöfn. Því miður gleymdist myndavélin heima, en það er alveg á hreinu að þennan stað þarf aftur að heimsækja með myndavélina.
Ég held að Danir séu fremur mikil jólabörn, heimili þeirra eru alla vega ansi jólaleg. Þeir vilja þó ekki vera mjög áberandi, jólaseríurnar eru flestar hvítar, þó sést í eina og eina í öðrum lit. Algengt er að sjá jólatré á svölunum hjá fólki, flest eru þau með seríum og sum meira að segja skreytt jólakúlum og öllum pakkanum. Margir eru líka búnir að setja upp jólatréð inni og vorum við einmitt að fylgjast með því þegar nágranni okkar var að skreyta það hjá sér í gær. Strax þriðja í jólum er eins og það hafi ekki verið jól, allt búið, jólatrén komin út, slökkt á öllum seríum og útsölur hafnar í öllum búðum.
Við höldum í okkar íslensku hefð, séría í öllum regnbogans litum á svölunum og jólatréð ekki upp fyrr en á Þorláksmessu og ekki tekið niður aftur fyrr en á þrettándanum.
Danir skilja ekkert í þessum þrettán jólasveinum sem við eigum.
Ummæli