Nú eru kennarar búnir að vera í verkfalli í tvær vikur á landinu bláa. KB er að farast úr öfund, hún vill líka vera í verkfalli (eins og hún orðað það). Henni finnst ansi fúlt að þurfa mæta í skólann á hverjum degi á meðan vinkonurnar á Íslandi sofa út og leika sér. En ég verð að viðurkenna að ég er nú bara fegin því að verkfallið lendi ekki á mínum börnum. Það vottar þó fyrir samviskubiti að búa hérna úti og vera í fullri vinnu á meðan kollegarnir eru að berjast fyrir mannsæmandi launum fyrir mína hönd. Ég kem jú til með að njóta góðs af samningunum þegar ég kem heim í sumar???
Ég held að Danir séu fremur mikil jólabörn, heimili þeirra eru alla vega ansi jólaleg. Þeir vilja þó ekki vera mjög áberandi, jólaseríurnar eru flestar hvítar, þó sést í eina og eina í öðrum lit. Algengt er að sjá jólatré á svölunum hjá fólki, flest eru þau með seríum og sum meira að segja skreytt jólakúlum og öllum pakkanum. Margir eru líka búnir að setja upp jólatréð inni og vorum við einmitt að fylgjast með því þegar nágranni okkar var að skreyta það hjá sér í gær. Strax þriðja í jólum er eins og það hafi ekki verið jól, allt búið, jólatrén komin út, slökkt á öllum seríum og útsölur hafnar í öllum búðum.
Við höldum í okkar íslensku hefð, séría í öllum regnbogans litum á svölunum og jólatréð ekki upp fyrr en á Þorláksmessu og ekki tekið niður aftur fyrr en á þrettándanum.
Danir skilja ekkert í þessum þrettán jólasveinum sem við eigum.
Ummæli