Fara í aðalinnihald

Færslur

Sýnir færslur frá ágúst, 2004
Jæja, nú er lífið aftur komið í rútinuna og þá líður mér vel. Það er stundum eins og það megi ekkert út af bregða þá fari að halla undan fæti. En ég veit sjálf best að ég verð að passa rosalega vel upp á svefn, mat og hreyfingu svo að ég haldi jafnvægi (eitthvað fór þetta því miður úr skorður um helgina). Við Björn vorum í heimsókn á skrifstofu VIBO (fyrirtækið sem á íbúðina sem við búum í) í morgun, við höfum verið að gera okkur vonir um að fá aðra íbúð hjá þeim um áramótin, en við framleigjum þessa íbúð til áramóta. En okkur var sagt að það væri útilokað. Þannig að nú er að fara af stað og leita að húsnæði, það er víst ekki mjög auðvelt hérna í henni kóngsins Köben. En við setjum fingur í kross og vonum það allra besta.
Ég hélt mig mest inni í litla búrinu mínu um helgina. Ég hafði það fremur skítt andlega og þá á ég það til að láta allt líta vel út á yfirborðinu, en er samt alveg í klessu inní mér, fel mig inní búrinu mínu og læt lítið fara fyrir mér. En nú er ég farin að rétta úr mér inni í búrinu og hver veit nema ég kíki út í dag. En það er ekki þar með sagt að ég hafi setið heima aðgerðarlaus, nei, nei. Á laugardaginn var sumarhátið í litla hverfinu okkar, fólk dreif sig út og seldi eigur sínar fyrri hluta dagsins og síðan var grillað saman og skemmt sér um kvöldið. Við sátum saman með Hrafnhildi, Viðari og börnum og Sigþóri og Kristínu, en þau eru ungt par sem fluttu hingað í sumar (Kristín Björg passaði dóttur Sigþórs í sumar). Í gær fórum við hjónin í heljarinnar göngutúr, gengum um Kristjánshöfn og Kristjaníu og við vorum heila fjóra klukkutíma á rölti. Þegar við komum heim eldaði Kristín Björg fyrir okkur fyllta hálfmána sem brögðuðust mjög vel. Kvöldið var tekið með ró í sófanum.
Mikið hrikalega hef ég verið þreytt þessa viku. Ég hef rétt orkað að fara í vinnuna og síðan heim aftur og í sófann, ekki alveg ég. Reyndar hefur verið ótrúlega mikið að gera í vinnunni. Í sumar var allt málað hjá okkur, skipt á gólfum og nú er verið að setja upp nýtt eldhús. Við höfum eytt öllum aukatíma í að koma öllu í það horf sem við viljum hafa það. Höfum hent fullt af drasli og endurskipulagt allar stofur upp á nýtt. Þessa dagana er verið vinna í eldhúsinu og það var t.d. enginn elhúsvaskur og ekkert vatn og ekki hægt að nota uppþvottavélina. Við þurftum að senda óhreint leirtau upp á efri hæðir til að setja í uppþvottavél. Það hefur líka verið mikið um veikindi, fyrir utan að það á eftir að ráða einn starfsmann (undirmannað). Þannig að það er ekki teknar pásur allan daginn. Þess utan þá er ég búin að ráða mig tímabundið (var lánuð) á vöggustofuna, fyrir hádegi, ég hélt að ég ætti aldrei eftir að vinna með börn frá eins til þriggja ára. En svona er lífið óútreiknanlegt.
Lífið gengur sinn vanagang. Sverrir Falur var mjög ánægður og þreyttur eftir fyrsta daginn í "vinnunni". Leikskólavinna á vel við hann, alla vega að vinna með börnum. Nú er ég alveg komin í gírinn að fara að gera eitthvað meira en að vinna, éta, sofa, skokka og synda. Ekki taka börnin mikinn tíma frá mér. Þau eru meira úti en inni (alla vega Kristín Björg). Þannig að ég hlakka mikið til að byrja aftur í KHÍ þann 10. september. Ég get reyndar sótt fullta af námskeiðum hérna líka, það er nóg í boði. Það er aðeins farið að kólna hérna. Hitinn er u.þ.b. 20°C á daginn, en á nóttunni fer hann niður í ótrúlega mikinn kulda (brrrrr).
Það versta við helgar er hvað þær eru fljótar að líða. Þetta var enn ein rólegheitarhelgin. Við þvældumst aðeins um á laugardaginn, hjóluðum niður í bæ og kíktum á mannlífið. Það er svo gaman að sjá hvað mannlífið er fjölbreytilegt. Ég get eiginlega ekki þreyst á að horfa á fólk og velta því fyrir mér hvernig lífi það lifi. Í gær byrjaði dagurinn á skokki (eins og alla sunnudaga), borðaður staðgóður og hollur morgunmatur, kíkt í kaffi til Hrafnhildar og Viðars og síðan var restinni af deginum eytt í sófanum með skáldsögu og annað augað á Ólympíuleikunum. Ég hef verið að reyna að taka á mataræðinu undanfarnar vikur. Ég hef hætt alveg að borða sykur í nokkurn tíma, svo hef ég prófað að halda mig frá sykri og brauði á virkum dögum, en einhverra hluta vegna hef ég alltaf misst tökin á þessu aftur og aftur. Ég vil svo gjarnan stjórna því sjálf hvenær ég læt matinn (nammið) ofan í mig, en þetta hefur algjörlega verið stjórnlaust hjá mér undanfarin ár og áratugi. Ef súkkulaðið er til í sk...

mikil vinna

Helgin var hreint út sagt yndisleg. Ég byrjaði hana á föstudagskvöldið á svölunum hjá Hrafnhildi og Viðari. Ég hafði ekki hitt vinafólkið í næsta húsi í tæpan mánuð, nema í mýflugumynd. Við Hrafnhildur fengum okkur smá rautt og líka aðeins hvítt. Á laugardaginn var horft á smá sund í sjónvarpinu og síðan var haldið niður í bæ. Veðrið var frábært. Við byrjuðum á að fara á handverksmarkað sem er haldinn árlega við Frúarkirkjuna. Þar er selt alls kyns handverk úr keramiki, postúlíni, gleri, silki, gulli, silfri og fl. Við fórum síðan á ítalskan markað við Thorvaldsens safnið. Þar var hægt að kaupa meira matarkyns og fengum við okkur þar smá í gogginn. Við enduðum bæjarferðina á að fara upp á Ráðhústorg og fylgjast með "gay-pride" göngunni, sem var ekki síður skrautleg en í fyrra. Sunnudagurinn far heldur rólegri, helgaður dagbókarskrifum, bréfaskriftum, skokki og rólegheitum. Vinnudagurinn var langur í dag. Ég var að vinna til kl. 17:30 (þurfti að loka í dag). Ég slapp þó við...

Hiti og aftur hiti

Hérna eru ennþá í kringum 30 gráðurnar dag eftir dag og mér finnst þetta ansi fínt, ég er þó ekki það mikill sóldýrkandi að ég nenni að liggja og baða mig í henni, mér finnst skugginn í rauninni miklu betri. Við fengum frábæra gesti um síðustu helgi og fram á þriðjudag, en Jakob Falur, Dagur og Júlía komu í heimsókn frá Brussel. Það var yndislegt að hitta þau og krökkunum fannst æðislegt að fá að vera saman. Kristín Björg lék sér við Dag og Júlíu allan tímann, nema rétt á meðan hún skrapp í skólann og það er ótrúlegt hvað þau eru náin miðað við hvað þau hittast sjaldan. Júlía missti aðra tönnina sína á meðan við biðum eftir strætó á laugardaginn, en var svo óheppin að týna henni inn í strætisvagninum. Það var ýmislegt brallað á meðan þau voru hérna. Það var farið á ströndina, á Íslandsbryggju, í bátsferð um kanalinn, í heimsókn til Drífu og fjölskyldu, kíkt á lífverði drottnigar og fleira. Það var eiginlega allt of heitt til að fara í tívolí og dýragarða, þannig að það var blásið á sv...

áfram sól

Fyrsti sumardagurinn var núna á dögunum og hann hefur ekki komið svona seint síðan árið 1928. Veðurfræðingar segja nefnilega að fyrsti almennilegi sumardagurinn sé þegar hitinn nær 25°C og það hefur ekki gerst svona seint síðan snemma á síðustu öld. En núna á hitinn bara að hækka og hækka og í dag var ansi heitt (kannski að sumrinum hafi bara seinkað og verði næstu tvo, þrjá mánuðina). Ég er þessa dagana aðallega í vinnunni, úti að skokka, í sundi eða heima hjá mér að dútla við heimilisstörf eða annað skemmtilegra. Í morgun var ég t.d. á fundi með nokkrum kennurum í Sundpark skolen og starfsmönnum tveggja annarra "fritids"heimila. En við vinnum nokkur verkefni saman með nemendum 0. bekkjar = 1. bekkjar á Íslandi. Guð, hvað mér rosalega vel á að fá að koma inn í skólann og vinna svona verkefni, kennarinn fær líf.

Línuskautar

Vitið hvað, við hjónin keyptum okkur línuskauta á dögunum og í gær var tekin fyrsta prufan. Við höfum aldrei á ævinni staðið á línuskautum fyrr, en ég hef þó nokkrum sinnum farið á skauta, sem er ekki mjög ólíkt. Við settum á okkur alls konar öryggisbúnað áður en lagt var af stað. Okkur tókst að standa í þó nokkurn tíma og renndum okkur niður að strönd, meðfram ströndinni og til baka (ótrúlega gaman). Veðrið heldur áfram að leika við okkur og það spáir bara meiri og meiri hita. Krakkarnir byrjuðu í skólanum í dag, frekar súr að þurfa að vakna. En ég held að það hafi bara alls ekki verið eins leiðinlegt að byrja aftur eins og þau láta í veðri vaka.